Erlent

Flúði þegar sveitir Maduro ætluðu að grípa hann

Kjartan Kjartansson skrifar
Edmundo González flúði til Spánar þegar ljóst varð að hann yrði tekinn höndum í heimalandinu.
Edmundo González flúði til Spánar þegar ljóst varð að hann yrði tekinn höndum í heimalandinu. AP/Ariana Cubillos

Edmundo González, forsetaframbjóðandi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, segist hafa flúið land þegar hann fékk upplýsingar um að öryggssveitir Maduro forseta ætluðu að taka hann höndum. Hann hefði getað verið handtekinn og pyntaður.

González flúði til Spánar fyrr í þessum mánuði en Nicolás Maduro, forseti Venesúela, hafði þá ítrekað hótað því að fangelsa hann og aðra leiðtoga stjórnarandstöðunnar í kjölfar umdeildra forsetakosninga í júlí.

Andrúmsloftið í Venesúela hefur verið þrungið spennu eftir kosningarnar. Verulegar efasemdir eru um að kosningarnar hafi farið heiðarlega fram. González og stjórnarandstaðan heldur því fram að hann hafi fengið flest atkvæði en yfirkjörstjórn landsins lýsti Maduro sigurvegara. Hún birti þó aldrei tölur fyrir alla kjörstaði þrátt fyrir að það hefði verið venjan fram að þessu.

Maduro sakaði stjórnarandstöðuna um að reyna að ræna sig völdum og lét saksóknara sinn gefa út ákæru á hendur leiðtogum hennar fyrir ýmsa meinta glæpi.

Í viðtali við Reuters-fréttastofuna fyrir helgi sagði González að lífvörður hans hefði fengið upplýsingar um að öryggissveitir Maduro ætluðu sér að klófesta hann og að best væri að hann léti sig hverfa.

„Ég hefði getað farið í felur en ég varð að vera frjáls til þess að gera það sem ég er að gera, að miðla því til heimsbyggðarinnar sem er að gerast í Venesúela, vera í samskiptum við þjóðarleiðtoga,“ sagði González.

Þvingaður til þess að skrifa undir kosningasigur Maduro

Um leið og handtökuskipun hefði verið gefin út á hendur honum segist González hafa vitað að hann ætti yfir höfði sér fangelsisvist, mögulega í einu af þeim fangelsum sem stjórn Maduro hefur breytt í pyntingarmiðstöðvar.

Þá segist González hafa verið þvingaður til þess að skrifa undir bréf þess efnis að hann sætti sig við sigur Maduro áður en hann yfirgaf Venesúela. Þá hafi menn Maduro tekið myndir af honum sem voru síðar birtar opinberlega í óþökk hans.

Í skiptum hafi González fengið fyrirheit um að dóttir hans og fjölskylda hennar yrði látin í friði og sömuleiðis eignir hans sjálfs í landinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×