Fótbolti

Jafnt hjá PSG og Gala­tasaray vann stór­leikinn í Tyrk­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mörk sem skipta miklu máli.
Mörk sem skipta miklu máli. EPA-EFE/ERDEM SAHIN

Frakklandsmeistarar París Saint-Germain gerðu nokkuð óvænt 1-1 jafntefli við Reims í efstu deild karla þar í landi. Þá vann Galatasaray 3-1 sigur á Fenerbahçe í uppgjöri toppliða Tyrklands.

Keito Nakamura kom Reims yfir strax á 9. mínútu og tók það PSG sinn tíma að ranka við sér eftir það högg. Var sem það væri Meistaradeildar-þynnka í PSG liðinu sem var langt frá sínu besta.

Á 68. mínútu jafnaði Ousmane Dembélé metin og þar við sat, lokatölur 1-1. PSG vissulega mun meira með boltann og skapaði sér mun fleiri færi en það dugði ekki til í kvöld.

Parísarliðið er eitt á toppi deildarinnar með 13 stig en bæði Marseille og Monaco geta jafnað það að stigum.

Stórleikurinn í Tyrklandi stóð undir væntingum hvað varðar læti og skemmtanagildi en lærisveinar José Mourinho í Fenerbahçe voru á heimavelli. Það voru hins vegar gestirnir sem fóru með nokkuð öruggan sigur af hólmi.

José ekki sáttur.EPA-EFE/ERDEM SAHIN

Fyrsta mark leiksins reyndist sjálfsmark en Lucas Torreira, miðjumaður Galatasaray, átti þá þrumuskot í stöngina. Þaðan fór boltinn í bakið á Dominik Livaković og í netið. Sjálfsmark hjá markverðinum og gestirnir komnir yfir.

Á 28. mínútu skoruðu gestirnir aftur og að þessu sinni var ekki um neitt sjálfsmark að ræða. Victor Osimhen notaði þá brjóstkassann til að leggja boltann svona líka snyrtilega á Dries Mertens sem vippaði boltanum snyrtilega yfir Livaković. Frábært mark í alla staði og staðan orðin 0-2.

Leikmenn Galatasaray fagna.EPA-EFE/ERDEM SAHIN

Gabriel Sara gerði svo í raun út um leikinn þegar tæp klukkustund var liðin með þriðja marki gestanna. Edin Džeko minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu en nær komust heimamenn ekki og lokatölur 1-3.

Galatasaray er áfram með fullt hús stiga á toppi deildarinnar að loknum sex umferðum á meðan lærisveinar Mourinho eru í 2. sæti með 13 stig, fimm minna en toppliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×