Leikirnir milli Liverpool og KR 1964 voru sögulegir fyrir bæði lið. Þau voru að taka þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn. Þess var minnst í dag, að því tilefni að 60 ár eru frá frumraun beggja.
Leikmenn KR sem eru samankomnir á Anfield eru þeir Þórður Jónsson, Sveinn Jónsson, Heimir Guðjónsson, Ársæll Kjartansson, Gísli Þorkelsson, Þorgeir Guðmundsson og Gunnar Felixson.
Þeir eru á myndinni ásamt fjórum leikmönnum úr liði Liverpool.
Liðin mættust fyrst á Laugardalsvelli fyrir framan rúmlega tíu þúsund manns í ágúst 1964 þar sem Liverpool vann 5-0 sigur og mánuði síðar vann enska liðið 6-1 þar sem Gunnar Felixson skoraði mark KR.
Þeir Þórður og Þorgeir voru til viðtals á Stöð 2 í vikunni vegna áfangans og sagði Þorgeir um stemninguna þegar Gunnar skoraði markið:
„Ég man það þegar Gunni Fel skoraði, þá öskruðu þeir hærra og meira en þegar Púllararnir skoruðu. Þeir kölluðu þá: Reykjavík, Reykjavík!“ sagði Þorgeir.