Iceguys, hljómsveit samsett af nokkrum vinsælustu tónlistarmönnum landsins og fyrrverandi landsliðsmanni í knattspyrnu, hefur komið með hvelli inn í íslensku tónlistarsenuna síðan hún var stofnuð í fyrra.
Hljómsveitarmeðlimirnir Aron Can, Herra Hnetusmjör, Jón og Friðrik Dór Jónssynir og Rúrik Gíslason, stofnuðu einnig hlutafélagið Fegurð er glæpur í fyrra. Samkvæmt hlutafélagaskrá er tilgangur félagsins tónlistarflutningur, tónlistarútgáfa og tengd starfsemi.
Fyrsti ársreikningur félagsins hefur verið birtur en hann endurspeglar ekki gríðarlegar vinsældir hljómsveitarinnar.
Samkvæmt honum námu tekjur félagsins aðeins 5,8 milljónum króna en rekstrargjöld 7,92 milljónum. Því var afkoma félagsins neikvæð um 2,1 milljón króna á fyrsta rekstrarári þess.