Usyk var handtekinn á flugvelli í Kraká í gær. Á myndbandi sáust einkennisklæddir menn leiða hann í burtu í handjárnum.
‼️ Oleksandr Usyk has seemingly been arrested at Krakow Airport in Poland today, though full information about the situation is currently unknown…pic.twitter.com/W2fLnxgCPF
— Michael Benson (@MichaelBensonn) September 17, 2024
Ekki er vitað af hverju Usyk var handtekinn en honum hefur nú verið sleppt úr haldi, meðal annars fyrir tilstuðlan Volódímírs Selenskí, forseta Úkraínu.
„Ég ræddi við Usyk í síma þegar hann var handtekinn. Ég var reiður vegna framkomunnar í garð borgara okkar og meistara,“ skrifaði Selenskí á Telegram.
„Ég skipaði utan- og innanríkisráðherra að komast að öllu um handtökuna. Um leið og mér var tjáð að allt væri í lagi var meistaranum okkar sleppt.“
Samkvæmt teymi Usyks og honum sjálfum var um misskilning að ræða. Hann kvaðst einnig ánægður með að málið hafi verið leyst. Usyk var á leiðinni til London til að fylgjast með bardaga Anthonys Joshua og Daniels Dubois um helgina.
Usyk varð heimsmeistari í þungavigt eftir að hafa sigrað Tyson Fury í maí. Þeir eiga að mætast aftur 21. desember. Usyk hefur unnið alla 22 bardaga sína sem atvinnumaður.