Innlent

Bréf sál­fræðings dugði ekki til að Erni yrði gert að víkja

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Árásin átti sér stað þegar brotaþoli og kona voru á göngu niður Hofsvallagötuna nærri Landakotsskóla.
Árásin átti sér stað þegar brotaþoli og kona voru á göngu niður Hofsvallagötuna nærri Landakotsskóla. vísir/vilhelm

Brotaþoli hnífaárásar í Vesturbæ Reykjavíkur krafðist þess að Erni Geirdal Steinólfssyni, sem ákærður er fyrir manndrápstilraun í málinu, yrði gert að víkja úr dómsal á meðan hann gæfi skýrslu. Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem beiðni brotaþola er hafnað. 

Úrskurður Landsréttar féll í gær, rétt áður en aðalmeðferð málsins hófst í héraðsdómi Reykjavíkur. Þrátt fyrir kröfu um að vera viðstaddur fór Örn Geirdal áður en skýrslutaka brotaþola hófst. Það gerði hann eftir hálfgert havarí fyrir utan dómsal þar sem ljósmyndari Vísis var beðinn af héraðsdómara um að mynda ekki sakborninginn. Loks yfirgaf Örn réttarsalinn klæddur stórum hálsklút. 

Vafalaust ógnvænleg lífsreynsla

Brotaþoli vísaði í kröfu sinni til þess ákvæðis laga um meðferð sakamála sem gerir brotaþola kleift að fara fram á að meintum geranda verði gert að víkja úr dómsal á meðan hann gefur skýrslu. Væri það gert í þessu tilfelli þar sem það væri sérstaklega íþyngjandi fyrir hann að gefa skýrslu fyrir dómi að ákærða viðstöddum.

Lagði brotaþoli fram tvö bréf sálfræðinga þar sem þeir taka undir þessa kröfu hans. Þar kemur fram að brotaþoli þekki ekki meintan geranda og viðvera hans gæti valdið frekari geðheilsuerfiðleikum. 

Héraðsdómur vísaði til þeirrar meginreglu sakamálaréttarfars að ákærði eigi rétt á að vera viðstaddur réttarhöld sem varða hann og á sér stoð í stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu. 

Að mati dómsins væri lífsreynsla brotaþola vafalaust ógnvænleg og til þess fallin að valda honum sálrænum erfiðleikum. Eðli brotsins eitt og sér nægi hins vegar ekki til þess að fallast megi á kröfu brotaþola. Bréf sálmeðferðarfræðings sem lágu fyrir í málinu væru ekki ítarleg og fremur almennt orðuð. Því væru skilyrði fyrir því að víkja ákærða úr dómsal ekki uppfyllt.


Tengdar fréttir

Telur röð tilviljana hafa orðið til þess að árásin átti sér stað

Þrír geðlæknar sem gáfu skýrslu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær varðandi stunguárás sem átti sér stað í Vesturbænum í janúar voru á sama máli um að karlmaður sem er ákærður í málinu væri sakhæfur. Það er þrátt fyrir að hann hafi verið í erfiðu andlegu ástandi þegar atvikin sem málið varða áttu sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×