„Við á Keflavíkurflugvelli eru afskaplega ánægð að heyra af því að airBaltic hafi ákveðið að bæta í þjónustu sína hjá okkur,“ segir Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar hjá Keflavíkurflugvelli í tilkynningu.
„Tallinn er ný og spennandi viðbót í þann fjölda áfangstaða sem okkar flugfélög hafa upp á að bjóða. Þessi viðbót sýnir að airBaltic hefur mikla trú á Íslandi sem áfangastað. Félagið er mikilsmetinn samstarfsaðili okkar í flugvallarsamfélaginu á Keflavíkurflugvelli. Sú ákvörðun airBaltic að bæta Tallinn við er örugg vísbending um vaxandi samstarf okkar til framtíðar.“
Thomas Ramdahl, framkvæmdastjóri leiðakerfis hjá airBaltic, segir það spennandi verkefni að bæta við Tallinn sem nýjum áfangastað.
„Við erum þakklát samstarfsaðilum okkar á Keflavíkurflugvelli fyrir gott samstarf í gegnum árin og hlökkum til að bjóða íslenskum ferðalöngum upp á enn meira úrval af þægilegum ferðamöguleikum til að kanna Eystrasaltsríkin.“
AirBaltic rekur meira en 130 flugleiðir frá Riga, Tallinn, Vilnius, Tampere og tímabundið frá Gran Canaria, sem bjóða tengingar til margvíslegra áfangastaða í leiðakerfi flugfélagsins í Evrópu, Miðausturlöndum, Norður-Afríku og Kákasus.