Hinn 33 ára gamli Jóhann Berg varð samningslaus í sumar og var að leita sér að nýju liði þegar hann ákvað nokkuð óvænt að semja við Burnley á nýjan leik. Það var því enn óvæntara þegar hann samdi við Al-Orobah, efstu deildarlið í Sádi-Arabíu.
Landsliðsmaðurinn var til viðtals í hlaðvarpi Íþróttavikunnar sem kemur út á vef 433.is. Þar segir hann að nú hafi verið tímapunkturinn til að prófa eitthvað nýtt.
„Eitthvað innra með mér sem vildi fara til Sádi-Arabíu. Ég var auðvitað búinn að vera á Englandi í tíu ár og var þyrstur í að prófa eitthvað nýtt,“ sagði Jóhann Berg meðal annars.
Jóhann Berg fór ekki í grafgötur með það að peningar spiluðu sinn þátt í þessari ákvörðun.
„ Ég er að verða 34 ára og að fá svona díl hjálpaði mikið til í að taka þessa ákvörðun. Mig langaði líka að prófa eitthvað nýtt og fannst þetta spennandi ævintýri,“ sagði hann einnig.
Hann hefur þegar spilað tvo leiki til þessa og gefið eina stoðsendingu.