Innlent

Þörf á fleiri lög­reglu­mönnum á djammið í Reykja­vík

Lovísa Arnardóttir og Bjarki Sigurðsson skrifa
Agnes segir ölvun ungmenna að aukast í miðbænum.
Agnes segir ölvun ungmenna að aukast í miðbænum. Stöð 2

Agnes Hlynsdóttir í Samtökum reykvískra skemmtistaðaeigenda og rekstrarstjóri skemmtistaðarins Lemmy segist verða vör við meira ofbeldi og vopnaburð á djamminu. Þá sé einnig töluvert um ungt fólk sem sé að reyna að smygla sér ölvað inn á skemmtistaði. Hún segir þurfa átak og meiri viðveru lögreglu í miðbænum.

„Það er eins og það sé ákveðinn hópur af fimmtán til sautján ára unglingum sem varla fara út úr húsi án þess að vera með hníf á sér.“

Agnes segir menningarnótt í ár hafa verið afar erfiða. Það hafi allt verið morandi í „blindfullum unglingum“ sem hafi verið að reyna að komast inn á skemmtistaðina. Agnes sér einnig um bókanir í Iðnó og var því að flakka á milli staðanna tveggja á menningarnótt. Hún segir að þegar hún gekk á milli hafi hún séð sjö til átta unglinga í götunni.

„Þetta er miklu meira en í fyrra og miklu, miklu meira en í hitteðfyrra,“ segir hún og að almennt sé ölvun ungmenna að aukast.

Hún segir ljóst að það þurfi að fara í eitthvað átak til að sporna við þessari þróun.

„Mér finnst vanta fleiri lögreglumenn í bæinn,“ segir hún en að ekki sé um eins manns verk að ræða. Það þurfi að virkja alla í samstarf.


Tengdar fréttir

Þrettán ára börn ósjálfbjarga vegna drykkju á Menningarnótt

Börn niður í þrettán ára þurftu að nýta sér þjónustu miðbæjarathvarfsins svokallaða vegna ölvunar á menningarnótt. Sérfræðingur segir dæmi um að börn hafi verið ósjálfbjarga af drykkju, sum snemma dags. Drykkja unglinga hafi aukist og að börn sæki í sterkt áfengi á borð við landa. 

Bera fyrir sig að hinir krakkarnir séu með hníf

Lögreglan telur að stórfellt átak þurfi til að taka á hnífaburði ungra barna. Dæmi er um að börn gangi um með rafvopn og piparúða. Einnig hefur borið á því að ungmenni mæti með hnífa í skólann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×