Lífið

Elísa­bet Gunnars á nýjum vett­vangi

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Elísabet segir hlaðvarpið vera ákveðna framlengingu á bloggi sínu á Trendnet en nú í viðtalsformi.
Elísabet segir hlaðvarpið vera ákveðna framlengingu á bloggi sínu á Trendnet en nú í viðtalsformi. Helgi Ómars

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fólki, allskonar fólki. Hvort sem það séu tískuskvísur á Norðurlöndunum eða sætir gamlir franskir kallar með hatt, þá veitir það mér mikinn innblástur,“ segir Elísabet Gunnarsdóttir, tískudrottning og ein af fyrstu stafrænu áhrifavöldum landsins. Hún stofnaði nýverið hlaðvarpið Morgunbollinn með Elísabetu Gunnars.

Elísabet er eigandi Trendnet.is og Sjöstrand á Íslandi og starfar einnig mikið á samfélagsmiðlum.

„Um áramótin tók ég ákvörðun um að hætta að blogga. Ég hafði aldrei tekið pásu og alltaf haldið dampi svo þetta var virkilega stór ákvörðun fyrir mig og ég er ennþá að fá spurningar hvort ég ætli ekki að snúa aftur. Staðan er sú að það blunda alltaf í mér hugmyndir um allskonar, ég er frumkvöðull í eðli mínu og fæ margar hugmyndir sem ég vil framkvæma,“ segir Elísabet í samtali við Vísi.

„Ég stofnaði Trendnet í ágúst 2012 og því er við hæfi að byrja með Morgunbollann í ágúst 2024. Haustið er greinilega óvart minn tími og örugglega margra til að starta nýjungum,“ segir hún og hlær.

Helgi Ómars

Gefur konum orðið

Elísabet segir hlaðvarpið ákveðna framlengingu á blogginu nema í viðtalsformi. 

„Til að byrja með ætla ég að lyfta konum upp því mér finnst þær ekki alltaf fá nægilegt pláss, en mun svo að sjálfsögðu hleypa öllum að. Við eigum svo margt fólk sem hefur áhugaverða sögu að segja, sumir vinna afrek og eru fremstir í flokki, svo er fegurðin líka oft í einfaldleikanum og litlu hlutunum,“ segir Elísabet. 

Í gegnum árin hefur hún nýtt samfélagsmiðlana til að vekja athygli á mikilvægum málefnum og til þess að safna fyrir góðan málstað. Elísabet stofnaði góðgerðarsamtökin Konur eru konum besta árið 2017 ásamt vinkonum sínum, Andreu Magnúsdóttur, Aldísi Pálsdóttur og Nönnu Kristínu Tryggvadóttur. Saman hafa þær staðið fyrir árlegri bolasölu þar sem safnað er milljónum fyrir mikilvægu málefni tengdu konum. 

„Allt snýst þetta um að leggja áherslu á að konur séu konum bestar en ekki verstar, eins og oft er talað um, segir Elísabet.

Listakonan Saga Sig er viðmælandi Elísabetar í fyrsta þætti af Morgunbollinn með Elísabetu Gunnars. Þar ræða þær meðal annars um tísku, fjölskyldulífið og heilsu.

Viðtalið má heyra í spilaranum hér að neðan:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×