Erlent

Telja apa­bóluna ekki „nýja CO­VID“

Kjartan Kjartansson skrifar
Rafeindasmásjármynd af apabóluveirunni í smitaðri frumu.
Rafeindasmásjármynd af apabóluveirunni í smitaðri frumu. AP/NIAID

Yfirmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Evrópu segir að mpox-veiran, sem áður var þekkt sem apabóla, sé ekki „nýtt COVID“. Heilbrigðisyfirvöld viti hvernig eigi að hefta útbreiðslu veirunnar sem hefur skotið upp kollinum víða um lönd undanfarið.

Áhyggjur hafa vaknað af nýju afbrigði mpox-veirunnar sem virðist smitast greiðar við náið samneyti en eldri afbrigði. Veirusýkingin er yfirleitt væg en getur þó dregið sjúklinga til dauða. Faraldur sem blossaði upp í Afríku hefur dreift úr sér og greindist tilfelli í Svíþjóð í síðustu viku. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) lýsti yfir neyðarástandið vegna nýja afbrigðisins.

Hans Kluge, yfirmaður WHO í Evrópu, reyndi að sefa áhyggjur þeirra sem óttast nýjan heimsfaraldur eftir kórónuveirufaraldurinn sem fór um heiminn fyrir fjórum árum, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Um hundrað ný tifelli mpox greinist nú í Evrópu á mánuði.

„Við getum og við verðum að taka á mpox saman,“ sagði Kluge sem lagði áherslu á að mpox-veiran væri ólík kórónuveirunni sem kostaði milljónir mannslífa.

Spurning væri hvort heimsbyggðin brygðist við með því að ná tökum á mpox og útrýma veirunni á heimsvísu eða með óðagoti og vanrækslu.

„Það hvernig við bregðumst við núna og á komandi árum verður mikilvæg prófraun fyrir Evrópu og heimsbyggðina,“ sagði Kluge við fréttafólk í dag.

Mpox-veiran smitast við náið líkamlegt samneyti, þar á meðal við kynmök. Engar vísbendingar eru um að veiran smitist með lofti, ólíkt COVID-19.


Tengdar fréttir

Apabóla greinist í Svíþjóð

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lýst yfir neyðarástandi vegna útbreiðslu apabólu. Sjúkdómurinn hefur breiðst hratt út í Afriku og fyrsta tilfellið þar fyrir utan greindist í dag í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×