Jóhann Berg hefur leikið með Burnley síðan 2016 en eftir fall liðsins úr ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð rann samningur hans út og var hann samningslaus um tíma. Á endanum ákvað Jóhann Berg að framlengja samning sinn við félagið um eitt ár.
Eftir að koma ekki við sögu í fyrsta leik tímabilsins í ár þá kom hann inn af bekknum og skoraði í öruggum 5-0 sigri á Cardiff City í annarri umferð.
Burnley hefur unnið fyrstu tvo leikina sína í B-deildinni og skorað 9 mörk. Ef eitthvað er að marka byrjun tímabilsins þá bendir allt til að liðið sé á leið upp í ensku úrvalsdeildina á nýjan leik í vor.
Hinn 33 ára gamli Jóhann Berg skrifaði undir árs samning nú í sumar en nú virðist sem hann gæti verið á förum áður en félagaskiptaglugginn lokar um komandi mánaðarmót.
🇮🇸🚨 EXCL. Jóhann Berg Gudmundsson close to sign in Saudi Arabia!
— Sacha Tavolieri (@sachatavolieri) August 19, 2024
Icelandic right winger made his medical tests today in order to complete his move to the Saudi Pro League. Told this deal’s imminent now. #twitterclarets #BurnleyFC #SPL pic.twitter.com/gKsC7URH62
Það var belgíski blaðamaðurinn Sacha Tavolieri sem greindi fyrst frá á X-síðu sinni, áður Twitter, áður en heimildir Vísis staðfestu að Jóhann Berg væri á leið í víking til Sádí-Arabíu. Ekki er vitað um hvaða lið er að ræða að svo stöddu.
Jóhann Berg á að baki 93 A-landsleiki og hefur skorað í þeim 8 mörk.