Að sögn Landhelgisgæslunnar sögðu vegfarendur bátinn vera um 300 metra frá landi og að maður hafi sést á kili bátsins. Björgunarsveitir frá Akranesi, Kjalarnesi og Reykjavík hafi þá haldið á staðinn og þyrlusveit Landhelgisgæslunnar verið ræst út á mesta forgangi.
Fram kemur í tilkynningu frá Gæslunni að þegar þyrlusveit og björgunarsveitarfólk var komið á vettvang hafi manninum tekist að komast að sjálfsdáðum í land. Viðbragðsaðilar hafi þá hlúið að manninum sem var bæði kaldur og blautur eftir óhappið. Hann var loks fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík til frekari skoðunar.