Keflvíkingar voru á góðu skriði fyrir leikinn í kvöld. Eftir 5-0 tap gegn ÍBV þann 30. júní hafði liðið ekki tapað leik og unnið síðustu fjóra leiki sína.
Sigurgangan hélt áfram í kvöld á HS-Orku vellinum. Oleksii Kovtun kom Keflavík í 1-0 á 44. mínútu og Kári Sigfússon tvöfaldaði forystuna í upphafi síðari hálfleiks.
Kwame Quee minnkaði muninn fyrir Grindavík á 64. mínútu en lengra komust gestirnir ekki. Keflavík er nú komið á fullt í toppbaráttuna og er aðeins einu stigi á eftir ÍBV sem er í öðru sætinu. Grindavík er hins vegar í brasi. Liðið hefur ekki unnið leik síðan 4. júlí og situr í 9. sæti Lengjudeildarinnar.
Í Mosfellsbæ gerðu Afturelding og Leiknir 1-1 jafntefli. Elmar Kári Enesson Cogic skoraði fyrir Aftureldingu á 31. mínútu en Omar Sowe jafnaði fyrir Leikni sjö mínútum síðar og þar við sat.
Afturelding er í 7. sæti Lengjudeildarinnar með 21 stig en Leiknir í 10. sæti með 16 stig, aðeins stigi á eftir Grindavík.
Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af Fótbolti.net