Engin opinber staðfesting hefur enn fengist á fangaskiptunum sem Reuters-fréttastofan segir að gætu verið þau umfangsmestu frá lokum kalda stríðsins. Grannt hefur verið fylgst með ferðum flugvélar rússneskra stjórnvalda sem hefur áður verið notuð við fangaskipti en henni hefur verið flogið á milli Moskvu og Kalíníngrad við landamæri Póllands og Litháens í dag.
ABC-sjónvarpsstöðin í Bandaríkjunum hefur eftir heimildarmanni innan Bandaríkjastjórnar að Evan Gershkovic, blaðamaður Wall Street Journal, og Paul Whelan, fyrrverandi sjóliði, verði hluti af skiptunum. CNN-fréttastöðin hefur eftir sínum heimildum að hópur Bandaríkjamanna verði á meðal fanganna sem skipt verður á, þar á meðal Gershkovic og Whlean.
Auk Gershkovic og Whelan hefur breska ríkisútvarpið BBC fengið staðfest að Alsu Kurmasheva, rússnesk-bandarískur útvarpsfréttamaður, verði látin laus. Hún var dæmd í sex og hálfs árs fangelsi fyrir að dreifa röngum upplýsingum um rússneska herinn í síðasta mánuði
Alls ætli ríkin að skiptast á 24 föngum sem hafa verið í haldi í Rússlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi og þremur Evrópuríkjum. Á meðal þeirra eru sagðir átta Rússar, þar á meðal nokkrir sem eru taldir tengjast rússnesku leyniþjónustunni.
Þýska blaðið Der Spiegel segir að Vadím Krasikov, ofursti í rússnesku leyniþjónustunni FSB, sé nú á leið með flugvél til Tyrklands. Krasikov hlaut lífstíðardóm fyrir að myrða andstæðing rússneskra stjórnvalda í almenningsgarði í Berlín um hábjartan dag árið 2019.
Skyndilegt hvarf pólitískra fanga í Rússlandi eins og Pauls Whelan, bandarísks fyrrverandi sjóliða, og Vladímírs Kara-Murza, rússnesks andófsmanns, auk nokkurra annara hefur gefið orðrómum um yfirvofandi fangaskipti byr undir báða vængi.
Gershkovich var handtekinn við störf sín í Rússlandi í fyrra og dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir meintar njósnir í síðasta mánuði. Whelan hlaut einnig sextán ára dóm fyrir njósnir árið 2020.
Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar, sagðist ekki tjá sig um „nokkuð af þessu ennþá“.