Ramsay hefur um árabil verið einn allra mesti Íslandsvinurinn og heimsækir klakann svo gott sem á hverju einasta ári. Í þetta skiptið skellti hann sér í veiði líkt og svo oft áður.
Eins og áður hefur komið fram á Vísi hefur Ramsay komið víða við í vikulangri Íslandsferðinni. Hann snæddi á veitingastaðnum Nebraska og líka á Edition hótelinu þar sem hann var utan við sig og rakst utan í annan veitingahúsagest. Hinn geðþekki sjónvarpskokkur var fljótur að biðjast afsökunar og skildu allir sáttir.
Þá birti Ramsay í gær myndir af sér á veitingastaðnum OTO á Hverfisgötu með starfsfólki staðarins og eigandanum Sigurði Laufdal verðlaunakokki. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ramsay skellir sér á veitingastaðinn en mikla athygli vakti fyrir svo gott sem sléttu ári síðan þegar kokkurinn fór þangað í fyrsta sinn. Var hann yfir sig hrifinn og réð sér vart fyrir hrifningu.