Alexandre Lacazette, núverandi leikmaður Lyon og fyrrverandi leikmaður Arsenal, kom Frökkum á bragðið gegn Bandaríkjunum á 61. mínútu. Átta mínútum síðar bætti Michael Olise, nýr leikmaður Bayern München, öðru marki við.
Góð staða Frakklands varð enn betri á 85. mínútu þegar Loic Bade, leikmaður Sevilla, skoraði þriðja mark liðsins og þar við sat.
Í hinum leik A-riðils sigraði Nýja-Sjáland Gíneu með tveimur mörkum gegn einu.
Japanir sýndu Paragvæum enga miskunn í D-riðli og unnu 5-0 sigur. Paragvæ missti mann af velli með rautt spjald eftir 25 mínútur í stöðunni 1-0. Í seinni hálfleik skoraði Japan svo fjögur mörk og öruggur sigur liðsins staðreynd.
Ísrael og Malí gerðu 1-1 jafntefli í hinum leik D-riðils.
Eftir farsann hjá Marokkó og Argentínu vann Írak 2-1 sigur á Úkraínu í B-riðli. Í næstu umferð mæta stigalausir Argentínumenn Írökum.
Þá gerðu Egyptaland og Dóminíska lýðveldið markalaust jafntefli í C-riðli. Í hinum leik riðilsins bar Spánn sigurorð af Úsbekistan, 2-1.