
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra ræddu stöðu og hlutverk kvenna í að tryggja frið og öryggi í heiminum á viðburði sem Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna boðaði til á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Washington í gærkvöldi. Hún sagði mikilvægt að nýta krafta kvenna til að efla hagvöxt, hernaðarfælingu og varnir. Í þeim efnum gæti umheimurinn lært mikið af Úkraínumönnum.
„Úkraínskar konur eru á víglínunni í þessu stríði og gegna þar vaxandi hlutverki. Framlag þeirra er mikilvægt í vörnum Úkraínu í dag og á morgun og styrkir þrek Úkraínu til að komast af. Þær leiða mannúðaraðstoð, gegna mikilvægum störfum í stjórnsýslunni og rödd þeirra gegnir lykilhlutverki í samfélaginu,"“ sagði Þórdís Kolbrún
Það væri mikilvægt að hlusta á konur í Úkraínu og styðja þær á þeirra eigin forsendum.

„Þess vegna er mér ljúft að greina frá hálfrar milljónar evra (75 milljón króna) framlagi Íslands í CAP-sjóðinn til að greiða fyrir mikilvægan líkamlegan varnarbúnað fyrir konur, einkennisbúninga og skó. Það er mikilvægt að þær hafi aðgang að nauðsynlegum vörnum sem einnig hjálpar til við að nútímavæða úkraínska heraflann,“" sagði utanríkisráðherra í ávarpi sínu þegar hún greindi frá 75 milljón króna framlagi Íslands í styrktarsjóð NATO fyrir Úkraínu.
Leiðtogafundinum sem hófst með 75 ára hátíðardagskrá í gærkvöldi, verður framhaldið í dag og á morgun. Í hátíðarávarpi sínu greindi Joe Biden forseti Bandaríkjanna frá 40 milljarða dollara viðbótarframlagi NATO ríkja til að efla varnir Úkraínu.

Fyrsti almenni fundur leiðtoganna þar sem framtíðaruppbygging NATO verður rædd hefst klukkan fimm að íslenskum tíma í dag. Á morgun funda leiðtogarnir með Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra situr fundi leiðtoganna og Þórdís Kolbrún situr fundi með utanríkis- og varnarmálaráðherrum.