Baltasar Breki Samper sá um leikstjórn myndbandsins, sem skartar meðal annars óbirtu myndefni frá upptöku myndarinnar.
Snerting hefur fengið frábæra dóma gagnrýnenda, bæði hér á landi og erlendis, en Snerting hefur þegar verið sýnd erlendum gagnrýnendum í aðdraganda þess að myndin verði frumsýnd erlendis.
Í Bandaríkjunum verður Snerting frumsýnd um aðra helgi, 12. júlí og opnar þar vítt og breitt á liðlega 250 skjáum. Þegar hafa liðlega 30.000 manns séð myndina hér heima.
Myndbandið má sjá hér að neðan.
Högni rekur sögu lagsins í samtali við fréttastofu. Lagið var það fyrsta sem hann samdi fyrir Snertingu, en Högni samdi tónlistina í myndinni. Innblástur í lagið sótti hann í verkið eftir að hafa lesið handritið að Snertingu.
„Þetta lag fléttaðist aldrei inn í myndina sem slíka heldur varð bara lag yfir kreditlistann,“ segir Högni. Á endanum hafi þó ekki gengið upp að spila það yfir kreditlistanum.
Baltasar Kormákur leikstjóri myndarinnar hafi því hringt í hann síðar og beðið hann um að búa til sönglag úr því. Honum hafi fundist lagið eiga skilið þá upphefð.
Úr varð að lagið var tekið upp í hljóðveri og Rvk Studios sá um að setja myndefni sem ekki var sýnt í Snertingu inn í tónlistarmyndbandið.
„Ég var strax mjög glaður að þessi hugmynd hafi orðið að veruleika, og upp með mér að svona mikið af flottu myndefni skuli tengjast laginu,“ segir Högni.