Danska ríkisútvarpið greinir frá því að málið verði tekið fyrir í héraðsdómi Kaupmannahafnar þann sjötta og sjöunda ágúst næstkomandi. Hinn ákærði er 39 ára gamall pólskur maður og situr nú í gæsluvarðhaldi. Hann er grunaður um að hafa kýlt ráðherrann fast í hægri upphandleg með þeim afleiðingum að hún missti jafnvægið og féll.
Forsætisráðherrann fékk vægan hálshnykk og var flutt á Rigshospitalet til skoðunar.
Árásarmaðurinn var undir miklum áhrifum áfengis og angaði af brennivíni þegar hann veittist að Mette. Hann var svo sljór að þurfti að aðstoða hann við að komast inn í lögreglubílinn. Hann man ekki mikið eftir árásinni.