Skjálftavirknin við Svartsengi og Sundhnúk er mjög lítil og hafa fáir smáskjálftar mælst undanfarna daga. Hraunið sem gekk í átt að norðanverðu Sýlingarfelli hélt áfram að renna mjög hægt frá því að gosinu lauk 22. júní og er nú alveg hætt að hreyfast.
Á vef Veðurstofunnar segir að hópur frá Náttúrufræðistofnun og Landmælingum Íslands hafi unnið úr gögnum sem safnað var í drónaflugi fyrir fjórum dögum. Þau gögn sýna að hraunið sé 9,3 kílómetrar að flatarmáli og rúmmælið um 45 milljónir rúmmetrar.

„Nýjustu aflögunarmælingarnar (bæði GNSS og InSAR gervitunglamyndir) sýna að landrísið undir Svartsengi heldur áfram. Hraði landrisins jókst eftir að gosi lauk og er nú orðin meiri en það sem mældist fyrir gosið sem hófst 29. maí. Hraða aflögunar má túlka sem að kvikuinnstreymi inn í kvikuhvolfið á 4-5 km dýpi haldi áfram,“ segir á vefnum.
„Með þessar forsendur að leiðarljósi má gera ráð fyrir að kerfið muni haga sér á svipaðan hátt og áður og að nýtt kvikuinnskot og/eða eldgos muni eiga sér stað á ný á Sundhnúkssvæðinu á næstu vikum. Frá og með deginum í dag er erfitt að sjá fyrir með vissu hvernig ástandið mun þróast. Gögnum sem safnað verður á næstu dögum/vikum munu hjálpa til við að meta stöðuna og hugsanlega við að skilja breytingar og þróun innan kvikukerfisins,“ segir á vef Veðurstofunnar.