Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vinnur að rannsókn brunans sem kom upp á jarðhæð Turnsins á Höfðatorgi í gær.
Þetta staðfestir Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í samtali við fréttastofu.
Rannsóknarvinnan fer fram með aðstoð fulltrúa frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Ekkert liggur fyrir um eldsupptök enn sem komið er en forsvarsmenn veitingastaðarins Intro gáfu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fullyrt er að eldurinn hafi ekki komið upp á veitingastaðnum. Eldsvoðinn var afmarkaður við veitingasal Intro.
Ásmundur segist ekki geta veitt frekari upplýsingar en segir að rannsóknarvinnu miði vel áfram.