Í samkomulaginu felst, samkvæmt heimildum fréttastofu, að lögreglulögin verði kláruð ásamt frumvarpi um mannréttindastofnun, það sama gildir um heimild til sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og breytingar á listamannalaunum. Þá náðist samkomulag um að taka verulegt tillit til breytingartillögu stjórnarandstöðunnar á örorkulífeyrisfrumvarpinu og mun það mál klárast fyrir sumarfrí.
Frumvarp um virkjanakosti í vindorku og slit á ÍL-sjóði verða hins vegar ekki afgreidd fyrir þingfrestun. Fyrir fundinn lá fyrir að lagareldisfrumvarpið umfangsmikla kæmist ekki í gegn og ekki heldur frumvarp um þjóðaróperu.
Þingfundur hefst klukkan hálf ellefu en á fundi dagsins verða atkvæði greidd um fjölda mála.