„Flíkurnar eru allar úr svartri blúndu. Í vörulínunni eru átta hlutir en við byrjuðum að hanna línuna í október og höfum verið að fara fram og til baka með hana síðan,“ segir Heiður Ósk í samtali við blaðamann og bætir við að línan samanstandi af átta flíkum.
Það sem einkennir þær er mjúk blúnda úr teygjanlegu efni sem umvefur líkamann og koma flíkurnar í mörgum stærðum. Fatalínan, stærðir og veislan sjálf var að sjálfsögðu með mjög „Heiðar-legu“ ívafi.
„Við sáum líka til þess að stærðirnar væru „Heiðarlegar“, sum sé í mínum anda, lengdin á buxunum og kjólnum er extra síð. Það er alltaf hægt að stytta fyrir þá sem þurfa.
Svo er auðvitað hægt að dressa flíkurnar upp og niður á marga mismunandi vegu. Blúndan sýnir mikið en fyrir þá sem vilja hylja sig er alltaf hægt að fara í þunnar flíkur undir og kemur það ótrúlega skemmtilega út.“
Að sögn Heiðar var stemningin mjög góð í teitinu.
„Við frumsýndum línuna í gær fyrir mjög vel valinn hóp í verslun AndreA þar sem allir fengu að máta og velja sínar uppáhalds vörur úr línunni. Okkur fannst skemmtilegt að hafa sólgleraugna þema þar sem það er komið sumar og einnig vegna þess að línan er öll svört.
Stemningin var geggjuð, allir á fullu að máta og eftir alla erfiðisvinnuna var svo gaman að sjá alla í flíkunum og sjá hvernig þeim var parað saman.“
Hér má sjá vel valdar myndir úr teitinu:





















