Englendingar eru að venju gríðarlega bjartsýnir í aðdraganda stórmóts í fótbolta. Stundum á það rétt á sér, stundum ekki. England fór vissulega alla leið í úrslit á EM 2020 og undanúrslit á HM 2018 en féll úr leik í 8-liða úrslitum á HM í Katar 2022. Þá er liðið fallið niður í B-deild Þjóðadeildarinnar.
Hvað sem því líður þá er mikil spenna fyrir EM þar sem England er í C-riðli ásamt Danmörku, Serbíu og Slóveníu.
Fjórir af sparkspekingum BBC, breska ríkisútvarpsins, voru spurðir hversu langt England getur farið á EM sem fram fer í Þýskalandi að þessu sinni. Spekingarnir fjórir eru Micah Richards, Wayne Rooney, Alan Shearer og Joe Hart.
Um er að ræða fjóra fyrrverandi landsliðsmenn Englands sem náðu þó mismiklum árangri, bæði með landsliðinu sem og félagsliðum sínum.
„England fer alla leið í úrslit,“ sagði Richards stuttorður. Hann gerði garðinn frægan hjá Manchester City en spilaði einnig fyrir Fiorentina og Aston Villa.

„Verðum að vera stefna á að vinna mótið. Hafa komist nálægt því að vinna stórmót síðustu tvö skipti. Fóru í úrslit gegn Ítalíu á EM 2020 og töpuðu svo fyrir Frakklandi á HM 2022 en ég tel okkur eiga góða möguleika. Erum með góðan leikmannahóp,“ segir Rooney.

„Persónulega tel ég England réttilega vera eitt af þeim liðum sem spáð sigri á mótinu. Tel þá vera með magnað lið og líður eins og við munum eiga gott mót,“ sagði Hart en hann stóð í marki Englands þegar liðið tapaði 2-1 fyrir Íslandi á EM 2016.

„Ég trúi að fremstu sex hjá Englandi séu með þeim bestu, ef ekki þeir bestu, í heiminum. Sumir leikmanna okkar og hæfileikarnir sem þeir búa yfir geta ógnað hvaða liði sem er. Ég trúi að England geti farið alla leið,“ sagði Shearer.
