Greint var frá málinu í októbert á síðasta ári þegar maðurinn krafðist miskabóta út hendi ríkisins. Hann sagði í samtali við fréttastofu að húðlitur hans hefði ráðið aðgerðum lögreglu.
RÚV greinir frá því að ríkislögmaður hafi fallist á að greiða bæturnar. Því er hins vegar hafnað í bréfi til lögmanns mannsins að í því felist viðurkenning á því að eitthvað athugavert hafi verið við framgöngu lögreglu. Fyrir liggi þó að maðurinn sætti handtöku og líkamsleit og ekki verði talið að hann hafi valdið eða stuðlað að aðgerðunum sjálfum. Því séu skilyrði til bóta uppfyllt.
Hann fór fram á að greiddar yrðu 500 þúsund króna í bætur. 150 þúsund krónur er bótafjárhæðin sem ríkið fellst á auk 217 þúsund krónur í lögmannskostnað.
Rætt var við manninn í kvöldfréttum Stöðvar 2 í október.
„Þetta var á föstudagskvöldi sem ég var í tjaldi þarna og það var grunur um að hópur að strákum væri með hníf á sér. Ég var bara með vinum mínum þarna, allt í einu kemur einhver og tekur mig hálstaki svona ógeðslega fast. Ég hélt fyrst að þetta væri vinur minn,“ sagði maðurinn í viðtali við fréttastofu.