Danmörk er á leið á Evrópumót karla í knattspyrnu sem fram fer í Þýskalandi í sumar. Eru Danir í C-riðli með Englendingum, Slóvenum og Serbum. Til að undirbúa sig fyrir mótið spilaði Danmörk við Svíþjóð á heimavelli í kvöld og vann 2-1 sigur.
Heimamenn byrjuðu frábærlega en miðjumaðurinn Pierre-Emile Højbjerg, leikmaður Tottenham Hotspur, kom þeim yfir strax á annarri mínútu. Christian Eriksen, miðjumaður Manchester United, hafði tekið hornspyrnu sem var hreinsuð en rataði aftur til Eriksen sem gaf fyrir og Højbjerg var réttur maður á réttum stað.
Danir voru þó ekki lengi í paradís en Alexander Isak, leikmaður Newcastle United, jafnaði metin aðeins sjö mínútum síðar eftir að boltinn féll til hans í teignum. Staðan orðin 1-1 og þannig var hún þegar fyrri hálfleik lauk.
1-1 ved pause.
— Fodboldlandsholdene 🇩🇰 (@dbulandshold) June 5, 2024
Der har der været mange gode, danske chancer. Og i anden halvleg jagter holdet sejren i Parken.
Kom så Danmark 🇩🇰
📸 @fbbillederdk #herrelandsholdet pic.twitter.com/a9Qw5Yg8PV
Danir vildu fá vítaspyrnu þegar vel var liðið á leikinn en eftir að dómari leiksins fór í skjáinn og skoðaði atvikið gaumgæfilega ákvað hann að dæma ekkert. Skömmu síðar kom hins vegar sigurmarkið, Eriksen skoraði þá með frábæru skoti framhjá varnarlausum Robin Olsen í marki Svíþjóðar. Staðan orðin 2-1 og reyndust það lokatölurnar á Parken.
Í Noregi tóku heimamenn á móti Kósovó. Segja má að sá leikur hafi aldrei verið spennandi en Erling Braut Haaland, framherji Englandsmeistara Manchester City, skoraði þrennu í 3-0 sigri Noregs.
