KSÍ greindi frá því núna seinni partinn að þeir Hlynur Freyr Karlsson og Mikael Egill Ellertsson séu meiddir og munu þeir því ekki geta tekið þátt í komandi vináttuleikjum Íslands gegn Englandi á Wembley núna á föstudaginn sem og í leiknum gegn Hollandi í Rotterdam þremur dögum síðar.
Inn í þeirra stað hafa þeir Valgeir Lunddal Friðriksson og Logi Tómasson verið kallaðir í landsliðið.
Breytingar á leikmannahópnum hjá A karla fyrir leikina gegn Englandi og Hollandi. Hlynur Freyr Karlsson og Mikael Egill Ellertsson eru meiddir og verða ekki með, í þeirra stað koma Valgeir Lunddal Friðriksson og Logi Tómasson. pic.twitter.com/bVxmnkI5Lo
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) June 5, 2024
Áður höfðu Willum Þór Willumsson og Orri Óskarsson þurft að draga sig úr landsliðshópnum vegna meiðsla. Ekki var kallaður inn leikmaður í stað Willums en í stað Orra var Sævar Atli Magnússon, leikmaður danska liðsins Lyngby, kallaður inn í hópinn.
Báðir leikir Íslands í yfirstandandi landsleikjaglugga verða sýndir í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.