Bæði mörk leiksins komu úr vítaspyrnum. Sarah Puntigam kom Austurríki yfir á 26. mínútu en Glódís Perla Viggósdóttir jafnaði fjórtán mínútum fyrir leikslok.
„Við komum til baka og þurftum að hafa fyrir því. Mér fannst við skapa allan tímann, líklegri til að skora þótt þær hafi verið meira með boltann á köflum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Mér fannst seinni hálfleikurinn mjög góður, við sköpuðum opnari færi og í lokin hefðum við viljað skora,“ sagði Þorsteinn í samtali við RÚV eftir leikinn.
„Þetta er bara spurning um að halda áfram. Við þurfum að spila næsta leik vel líka. Hann verður erfiður en mér fannst við sýna það í dag að við eigum að geta unnið þær á þriðjudaginn.“
Þorsteinn var spurður út í klúðrið við skýrslugerð sem varð til þess að Kristín Dís Árnadóttir og Selma Sól Magnúsdóttir gátu ekki tekið þátt í leiknum í dag.
„Það eru bara mannleg mistök hjá starfsmanni Knattspyrnusambandsins,“ sagði Þorsteinn sem vildi ekki hvaða starfsmaður þetta væri.
„Mannleg mistök geta alltaf komið fyrir. Við erum öll mannleg. Þannig er það bara. Auðvitað hjálpaði þetta okkur ekkert en mannleg mistök verða í lífinu,“ sagði Þorsteinn.
„Við ræddum við leikmennina og allt það. Við getum ekkert gert og það er ekki hægt að breyta einu eða neinu.“