Eldhúsbíll frá fyrirtækinu Newrest sem þjónustaði vél Neos-flugfélagsins rakst utan í hurð á vélinni, að sögn Sigþórs Kristins Skúlasonar, forstjóra Airport Associates, þjónustuaðila vélarinnar. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli rak ökumaður þjónustubifreiðarinnar lyftu í neðri hluta flugvélarinnar.
Flugvélin var á leiðinni til Króatíu en flestir þeirra sem áttu að ferðast með henni voru útskriftarnemar úr Verslunarskólanum samkvæmt upplýsingum ferðaskrifstofunnar Indigo. Helmingur hópsins sem var í annarri flugvél í morgun er þegar haldinn utan.
Ragnar Unnarsson, fararstjóri hópsins, segir að reynt hafi verið að gera við flugvélina en ljóst sé orðið að það náist ekki í dag. Útlit sé fyrir að það náist að útvega aðra flugvél til þess að fljúga hópnum út í dag.
„Við erum að reyna að redda þessu. Er ekki fall fararheill?“ segir Ragnar.
Búið er að fresta opnunarteiti útskriftarhópsins sem átti að fara fram í kvöld vegna seinkunar annarrar vélarinnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.