Fyrsti leikurinn verður í Blue-höllinni í Keflavík. Keflavík kláraði einvígi sitt á móti Stjörnunni í oddaleik á mánudagskvöldið en Njarðvíkurkonur hafa beðið í tíu daga eftir leik kvöldsins.
Keflavík hefur ekki orðið Íslandsmeistari í sjö ár en Njarðvík getur unnið annan Íslandsmeistaratitil sinn á síðustu þremur árum. Þetta verður í annað skiptið sem Reykjanesbæjarliðin spila til úrslita um titilinn en það gerðist líka árið 2011 þegar Keflavík vann 3-0. Þjálfari Keflavíkur í dag, Sverrir Þór Sverrisson, þjálfaði þá Njarðvíkurliðið.
Fyrsti leikurinn hefst klukkan 20.15 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun hefst klukkan 19.30.
Vísir fékk sérfræðingana í Subway Körfuboltakvöldi kvenna til að spá fyrir um það hvernig úrslitaeinvígið fer í ár.
Keflavík er deildarmeistari og vann alla fimm leiki liðanna í vetur, fjóra í deild og einn í bikar. Sérfræðingarnir búast aftur á móti við mjög jöfnu einvígi en þær hafa aðeins meiri trú á Keflavíkurkonum í úrslitaeinvíginu.
Njarðvíkurliðið leit vel út í undanúrslitaeinvígi sínu á móti Grindavík þar sem liðið vann alla þrjá leikina. Keflavíkurkonur lentu aftur á móti óvænt í miklu basli með ungt lið Stjörnunnar og þurftu endurkomu í oddaleik til að tryggja sér sæti í úrslitunum.
Þrír af fimm sérfræðingum spá Keflavík sigri en þær sem spá Keflavík sigri telja að einvígið fari alla leið í oddaleik. Þær tvær sem spá Njarðvík sigri sjá þær fyrir sér vinna einvígið 3-1.
Fjórar af fimm spá Keflavíkurliðinu aftur á móti sigri í fyrsta leiknum í kvöld.
Fari svo að Njarðvík vinni einvígið þá verður það í fyrsta sinn sem Njarðvíkurkonur vinna einvígi á móti nágrönnum sínum í Keflavík. Keflavík hefur unnið öll þrjú einvígin til þessa og alls 8 af 9 leikjum liðanna í úrslitakeppni.
- Hvernig spá sérfræðingarnir:
-
-
- Hver verður Íslandsmeistari?
- Berglind Gunnarsdóttir: 3-1 fyrir Njarðvík
- Hallveig Jónsdóttir: 3-2 fyrir Keflavík
- Bryndís Guðmundsdóttir: 3-2 fyrir Keflavík
- Ólöf Helga Pálsdóttir: 3-1 fyrir Njarðvík
- Ingibjörg Jakobsdóttir: 3-2 fyrir Keflavík
- -
- Hver vinnur fyrsta leikinn í kvöld?
- Berglind Gunnarsdóttir: Keflavík
- Hallveig Jónsdóttir: Keflavík tekur fyrsta leikinn
- Bryndís Guðmundsdóttir: Keflavík með sex
- Ólöf Helga Pálsdóttir: Njarðvík vinnur fyrstu tvo
- Ingibjörg Jakobsdóttir: Keflavík tekur fyrsta leikinn