Nokkrar breytingar hafa verið skráðar hjá Base Parking á undanförnum vikum. Fyrir utan nafnbreytinguna 29. apríl var Ómar Þröstur Hjaltason, sem hefur verið í forsvari fyrir félagið, skráður úr stjórn þess og lögheimili og póstfang félagsins fært í Ármúla 19 í Reykjavík eftir hluthafafund 1. maí. Engin merki var að finna um félagið í skrifstofuhúsnæðinu í Ármúla þegar blaðamaður leitaði að því á mánudag.
Vefsíða Base Parking hefur verið virk undanfarna daga en nú skilar slóðin tilkynningu frá hýsingarþjónustu síðunnar um að aðgangnum hafi verið lokað.
Hildur Leifsdóttir, skipaður skiptastjóri þrotabúsins, staðfestir að Siglt í strand hafi verið úrskurðað gjaldþrota í síðustu viku.
Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, segir að félagið sé byrjað að gera kröfur fyrir tíu starfsmenn Base Parking til ábyrgðarsjóðs launa. Fyrstu starfsmennirnir hafi byrjað að leita til verkalýðsfélagsins í síðustu viku. Ógjörningur sé að segja hversu margir hafi starfað fyrir fyrirtækið þar sem stéttarfélagsgjöld hafi skilað sér illa eða alls ekki. Sumir starfsmannanna hafi verið skráðir í stéttarfélagið Eflingu.

Næst ekki í forsvarsmenn
Ekki hefur náðst í Ómar Þröst þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Fyrra símanúmeri hans virðist hafa verið lokað og tölvupóstfangi hjá Base Parking sömuleiðis. Ekki hefur heldur náðst í Geir Þorsteinsson sem er skráður forráðamaður félagsins.
Þá hefur ekki verið svarað í símanúmer sem gefið var upp á vefsíðu Base Parking og í símaskrám. Símsvari með skilaboðum um að ekki náist í farsímann mæta þeim sem reyna að hringja í númerið.
Þjónusta Base Parking fólst í að starfsmenn sáu um að leggja bílum flugfarþega og færa þeim þá aftur við heimkomu. Viðskiptavinir fyrirtækisins kvörtuðu undan því lyklar og jafnvel bílar þeirra fyndust ekki þegar þeir ætluðu að fá þá til baka. Í sumum tilfellum lögðu starfsmenn Base Parking bílum í gjaldskyld stæði þannig að viðskiptavinir voru tvírukkaðir fyrir að leggja bílum sínum.
Einn viðskiptavinur sá á upptöku úr framrúðumyndavél bíls síns að starfsmaður fyrirtækisins hefði ekið bílnum á 170 kílómetra hraða á klukkustund. Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis hefur haft áhyggjur af því að Base Parking brjóti á réttindum starfsmanna og greiði þeim svart.
Fréttin var uppfærð eftir að skiptastjóri staðfesti gjaldþrotið.