Byssumennirnir veittu fangaflutningabíl sem flutti fangann úr dómsal í fangelsi fyrirsát við tollskýli nærri Rúðuborg í Normandí í Norður-Frakklandi um ellefu leytið að staðartíma í morgun. Tveir fangavarðanna sem særðust eru í sérstakri lífshættu, að sögn Erics Dupond-Moretti, dómsmálaráðherra Frakklands.
Reuters-fréttastofan segir að myndir í dreifingu á samfélagsmiðlum sýni að minnsta kosti tvo grímuklædda menn með riffla við brennandi jeppa. Svo virðist sem að jeppanum hafi verið ekið framan á fangaflutningabílinn. Dupond-Moretti sagði að árásarmennirnir hefðu verið þungvopnaðir.
Strokufanginn sem árásarmennirnir hjálpuðu að sleppa heitir Mohamed Amra, fæddur árið 1994, að sögn saksóknara. Hann var sakfelldur fyrir hættulegt rán í síðustu viku, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Reuters hefur eftir sínum heimildum innan frönsku lögreglunnar að maðurinn sé grunaður um að hafa fyrirskipað morð í Marseille í Suður-Frakklandi þar sem hann tengist skipulögðum glæpasamtökum.
Franskir fjölmiðlar segja að Amra sé þekktur undir viðurnefninu „Flugan“ (fr. La mouche), að sögn AP-fréttastofunnar.
Nokkur hundruð lögreglumenn eru nú sagðir taka þátt í leitinni að fanganum og samverkamönnum hans. Emmanuel Macron forseti segir að allt verði gert til þess að hafa hendur í hári þeirra.
„Þessi árás í morgun sem kostaði líf fangavarða er okkur öllum áfall. Þjóðin stendur með fjölskyldunum, þeim særðu og samstarfsfólki þeirra,“ skrifaði Macron á samfélagsmiðlinum X.