Nýju lögin þvinga félagasamtök og frjálsa fjölmiðla sem fá fimmtung tekna sinna erlendis frá til þess að skilgreina sig sem hagsmunaverði erlendra afla og sæta eftirliti dómsmálaráðuneytisins. Tugir þúsunda manna hafa mótmælt frumvarpinu undanfarnar vikur. Ríkisstjórn landsins hafði áður verið gerð afturreka með sambærilegt frumvarp vegna fjöldamótmæla.
Stjórnarflokkurinn Georgíski draumurinn kom frumvarpinu í gegnum þing í dag. Mikil spenna var í þingsal og kom til ryskinga á milli stjórnarþingmanna og stjórnarandstöðuþingmanna, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Irakli Kobakhidze, forsætisráðherra, sagði í dag að ef ríkisstjórnin kæmi málinu ekki í gegn tapaði Georgía fullveldi sínu. Landið gæti auðveldlega deilt örlögum Úkraínu. Hann skýrði þau ummæli sín ekki frekar.
Salome Zourabichvili, forseti Georgíu, hefur sagst ætla að beita neitunarvaldi á lögin. Það dugar þó skammt því stjórnarflokkurinn getur trompað neitunarvald hennar með annarri atkvæðagreiðslu á þingi.
Georgía hefur stöðu mögulegs umsóknarríkis hjá Evrópusambandinu. Andstæðingar nýju laganna telja að þau dragi úr möguleikum landsins að fá aðild að sambandinu.