Í sumar munu meistaraflokkar Grindavíkur í knattspyrnu, karla og kvenna, bæði leika og æfa á Víkingssvæðinu í Safamýri. Jarðhræringarnar í Grindavík sjá til þess að enginn fótboltaleikur fer þar fram í ár en ein sprungan lá meðal annars í gegnum knattspyrnuhús bæjarins.
Hluti af samkomulagi Víkings og Grindavíkur er að fyrstu heimaleikir beggja liða yrðu leiknir í Víkinni (Heimavelli Hamingjunnar) með þeirri umgjörð sem Víkingur hefur byggt upp á undanförnum árum. Allur ágóði af miða- og veitingasölu rennur að sjálfsögðu óskiptur til Grindvíkinga.
„Víkingar ætla að bjóða okkur velkomin á sinn heimavöll í Víkinni. Þeir ætla að aðstoða okkur með umgjörð leikjanna og leggja fram hellings vinnu til að við sem að okkar liði komum getum þá aðeins slakað á og notið leikjanna ertir mikla vinnu síðustu mánuði,“ segir í fréttatilkynningu frá Knattspyrnudeild Grindavíkur
Á morgun, miðvikudaginn 1.maí, verða tveir leikir á dagskrá í Hamingjunni í Víkinni og er dagskráin sem hér segir.
Dagskráin á hátíð Grindvíkinga í Víkinni miðvikudaginn 1. maí 2024:
15:15 - Víkin opnar
16:00 - Grindavík - KR - Mjólkurbikar kvenna
18:15 - Hjaltested hamborgararnir byrja að hitna
19:15 - Grindavík - Fjölnir - Lengjudeild Karla
Jón Júlíus frá Grindavík verður vallarþulur og Sigurbjörn Trúbador keyrir upp stemninguna. Allur ágóði af miðasölu og sölu varnings og veitinga rennur óskiptur til Grindavíkur.