Lögregla var einnig kölluð til vegna ölvaðs einstaklings sem hafði í hótunum við afgreiðslufólk á bensínstöð. Þegar lögregla kom á vettvang kannaðist maðurinn ekki við neitt en var vísað á brott.
Skömmu síðar barst lögreglu önnur tilkynning um mann með hótanir í verslun skammt frá og reyndist um sama einstakling að ræða. Hann streittist á móti við handtöku og gisti fangageymslu í nótt.
Enn annað útkall barst þar sem lögregla og sjúkraflutningamenn voru kallaðir til þar sem einstaklingur sagðist hafa orðið fyrir líkamsárás. Þegar komið var á vettvang brást viðkomandi hins vegar ókvæða við og sýndi af sér ógnandi hegðun í garð lögreglu og sjúkraliði.
Voru tilraunir gerðar til að tala manninn til en hann náði ekki stjórn á sér og var handtekinn eftir að hafa brotið rúðu í hamaganginum. Málið er í rannsókn.
Lögregla aðstoðaði einnig leigubílstjóra sem átti í vandræðum með farþega sem neitaði að borga fargjaldið.
Þá sinnti hún útkalli vegna þjófnaðar í gleraugnaverslun. Gat verslunareigandi gefið nokkuð greinagóða lýsingu á gerandanum og málið er í rannsókn.