Verdens Gang segir að norska handboltasambandið hafi tapað meira einni milljón norskra króna á því að halda mótið sem er um þrettán milljónir íslenskra króna.
Það vekur þó athygli að Norðmenn héldu mótið með Dönum og Svíum og þar gekk mótshaldið mun betur peningalega. Danir græddu sex milljónir norskra króna, um 77 milljónir íslenskar, á mótinu og Svíarnir komu út á jöfnu.
Kåre Geir Lio, forseti norska handboltasambandsins, gaf VG þessar upplýsingar. Hann segir að þetta tap muni ekki koma í veg fyrir að Norðmenn haldi stórmót í framhaldinu. Þeir halda HM karla í handbolta í janúar næstkomandi með Danmörku og Króatíu og ætla síðan að halda HM 2031 með Íslendingum og Dönum.
Alls fóru 23 leikir fram í Noregi, leikir í riðlakeppni, milliriðlum og átta liða úrslitum.
Það voru alls 36.870 sem mættu á leikina hjá norsku stelpunum sem urðu í öðru sæti á mótinu.
Íslenska kvennalandsliðið spilaði leiki sína í riðlakeppninni í Noregi.