„Hann er þjálfari hjá félagi sem svífst einskis til að ná árangri. Þeir ætla að vinna og verða Íslandsmeistarar,“ sagði umsjónarmaður Stúkunnar, Guðmundur Benediktsson, er hann hóf umræðuna um samstarf Arnars og Vals. „Þeir eru tilbúnir að ná í þá leikmenn sem þeir telja að þeir þurfi. Það er engu til sparað til þess að gera það.
Arnar var illa fyrir kallaður í viðtölum eftir leik. Hann var pirraður, sem er eðlilegt. Þeir töpuðu leiknum. Hann var pirraður yfir því að tvo leiki í röð var hans lið ekki búið að gera það sem að þeir vilja gera. Er Arnar að finna fyrir pressunni sem þjálfari Vals?” spurði Guðmundur Benediktsson og beindi spurningunni til sérfræðinganna í setti, Baldurs Sigurðssonar og Atla Viðars Björnssonar.
„Já. Ég held að það útskýri hvernig hann svarar þessu,“ svaraði Baldur Sigurðsson. „Það hvernig hann kemur út úr þessum viðtölum litist af því að hann sé undir pressu. Þetta hefur áhrif. Umræðan hefur áhrif. Þetta hefur áhrif inn í hópinn og smitast þá einhver pressa inn í hópinn? Hann þarf bara að læra af þessu.“
Atli Viðar var að ósammála greiningu kollega síns og sagði sína tilfinningu þá að Arnar væri bara fyrst og fremst pirraður yfir því að tapa umræddum leik gegn Stjörnunni.
„Það var hasar þarna síðustu mínúturnar. Það eru allir þjálfarar undir pressu. Flest allir þjálfarar eru pirraðir eftir að hafa tapað leik. Ég er ekki viss um að ég sé sammála því að pressan sé að ná til hans.“
Umræðuna um Arnar Grétarsson og Val í Stúkunni má sjá hér fyrir neðan: