Þetta segir heimildarmaður ABC News í ríkisstjórn Bandaríkjanna. Hann segir skotmarkið hafa verið ratsjá fyrir loftvarnarkerfi Íran sem kemur að því að verja kjarnorkurannsóknarstöðina í Natanz. Þar hafa Íranar auðgað úran um árabil.
Heimildarmaðurinn segir vísbendingar um að árásin hafi heppnast en það hafi ekki verið sannað að fullu enn. Þá segir hann að árásinni hafi verið ætlað að senda klerkastjórninni í Íran skilaboð um að Ísraelar gætu gert árásir í Íran og að henni hefði ekki verið ætlað að stigmagna átökin milli ríkjanna.
Talið er að Ísraelar hafi skotið skotflaugum sem kallast Blue Sparrow á ratsjána. Þær eru framleiddar af ísraelska hergagnafyrirtækinu Rafael en brak úr þeim fannst í Írak í morgun. Þar er talið að um sé að ræða fyrsta stig skotflauganna.
So my initial gut feeling was correct, it was not UAVs. The IAF carried out a standoff attack from Syrian airspace with Sparrow, likely Blue Sparrow, air-launched ballistic missiles released from F-15Is.
— John Ridge (@John_A_Ridge) April 19, 2024
Booster wreckage was recovered in Iraq https://t.co/EZo1nTpXrs pic.twitter.com/5XR6Tv5iFu
Ísraelar og Íranar hafa eldað grátt silfur saman um árabil. Nokkuð hefur þó hitnað í kolunum á undanförnum mánuðum, samhliða stríðinu á Gasaströndinni.
Þessi árás fylgir á hæla umfangsmikilli árás Írana á Ísrael um síðustu helgi. Það var í fyrsta sinn sem Íranar gera beina árás á Ísrael og notuðu þeir rúmlega þrjú hundruð sjálfsprengidróna, stýriflaugar og skotflaugar en einungis nokkrar skotflaugar komust í gegnum varnir Ísraela og bandamanna þeirra.
Sú árás var hefndaraðgerð vegna þess þegar Ísraelar gerðu loftárás á ræðismannsskrifstofu Íran í Damaskus í Sýrlandi og felldu þar meðal annars tvo herforingja úr QUDS-sveitum íranska byltingarvarðarins. Þær sveitir hafa séð um að útvega vígahópum sem Íranar styðja í Mið-Austurlöndum vopn, fjármuni og þjálfun.