Ógnin af íranskra árás er raunveruleg og trúverðug að mati bandarískra stjórnvalda. John Kirby, talsmaður bandaríska þjóðaröryggisráðsins, sagðist þó ekki geta sagt til um hversu umfangsmikil eða hvers eðlis slík árás gæti verið, að því er breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir honum. Fylgst væri grannt með þróun mála.
„Við erum í stanslausum samskiptum við félaga okkar í Ísrael um að tryggja að þeir geti varið sig gegn þannig árásum,“ sagði Kirby.
Íranskir og ísraelskir ráðamenn hafa skipst á hótunum eftir loftárásina í Damaskus í Sýrlandi sem varð sex liðsmönnum íranska byltingarvarðarins að bana, þar á meðal einum herforingja 1. apríl. Stjórnvöld í Teheran kenna Ísraelum um loftárásina en þeir hafa ekki gengist við henni.
Ali Khamenei, æðsti klerkur Írans, sagði í vikunni að Ísraelum yrði refsað fyrir árásina. Utanríkisráðherra Ísraels sagði að Ísraelar myndu svara fyrir sig réðust Íranar á landið.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, fundaði með stríðsráði sínu í dag. Stjórn hans hefur þó ekki gefið út sérstök fyrirmæli til almennings umfram þau sem hafa verið í gildi um að fólk byrgi sig upp af vatni, mat og nauðsynlegum lyfjum til þriggja daga.
Nokkur hópur ríkja, þar á meðal Bandaríkin og Bretland hafa varað borgara sína við því að ferðast til Ísraels vegna spennunnar. Bandarískir sendiráðsstarfsmenn í Ísrael mega ekki fara út fyrir borgirnar Tel AViv, Jerúsalem og Beersheba.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur áður heitið Ísrael óbilandi stuðningi ef Íran ræðst á landið.