„Við erum að taka fyrir einstaka hljómsveitir og tónlistarmenn,“ segir Sigurjón en heldur þeim möguleika opnum að einstaka plötur eða jafnvel lög verði tekin fyrir. Einnig er til skoðunar að taka fyrir einstök landssvæði bætir Addi við. „Bíðið bara þar til Sigurjón mun taka fyrir pönk frá austur London frá árinu 1979.“
Þeir munu taka fyrir efni í þáttunum sem þeir hafa áhuga á, alveg óháð vinsældum. „Hlustendur munu heyra efni sem þeir hafa jafnvel ekki heyrt áður og kynnast vanmetnum böndum og plötum. Eitthvað sem náði kannski ekki miklu flugi á sínum tíma en átti það svo sannarlega skilið,“ segir Addi.
Í þáttunum segjast þeir ætla að kryfja ýmsar sögusagnir og því megi kannski segja að þeir séu nokkurs konar rannsóknarblaðamenn þegar kemur að tónlist. „Við gerum líka orðrómi hátt undir höfði og metum í hver skipti hvort við viljum breyta eða eyða góðri sögu með sannleika. Það mætti jafnvel segja að þátturinn sé góð blanda af fornleifafræði og sakamálaþætti,“ segir Sigurjón.
Í fyrsta þætti Djúpsins, sem fór í loftið föstudaginn 5. apríl, var enska síðpönksveitin Killing Joke tekin fyrir en hún á skemmtilega Íslandstengingu. „Þar fjöllum við um tímabilið þegar tveir meðlimir sveitarinnar flúðu til Íslands og stofnuðu hljómsveitina Iceland ásamt nokkrum meðlimum Þeysaranna,“segir Addi.

Þátturinn á sér enga fyrirmynd heldur spratt hugmyndin fram eftir að þeir gerðu óvart „offline“ útvarpsþátt með nördaspjalli. „Alltaf þegar við hittumst byrjar nördaspjallið mjög fljótlega. Því lá bara beinast við að gera útvarpsþátt í þeim anda,“ segir Sigurjón.
Í næsta þætti fara þeir félagar yfir mikla ráðgátu sem tengist frægum íslenskum bassaleikara og frægri breskri hljómsveit.
fer í loftið á X977 á hverjum föstudegi kl. 14 og stendur yfir til kl. 16.