Samningamenn Hamas og ísraelskra stjórnvalda hafa fundað í Kaíró í Egyptalandi ásamt katörskum og egypskum millgöngumönnum. William Burns, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, hefur einnig verið viðstaddur viðræðurnar.
Fulltrúar Hamas fóru heim frá Kaíró í gær til skrafs og ráðagerðar. Basem Naim, háttsettur Hamas-liði, sagði viðræðurnar í bið og að nýjasta tillaga Ísraela væri skref aftur á bak í gær. Tillagan gæti ekki verið grundvöllur vopnahléssamkomulags.
Ríkisstjórn Ísraels fundar um gang viðræðnanna í dag, að sögn Washington Post.
Í yfirlýsingu sem Hamas-samtökin sendu frá sér í dag segjast þau enn fara yfir tillöguna og ætla að svara milligöngumönnum viðræðnanna formlega.
„Hreyfingin hefur áhuga á að því að ná samkomulagi sem bindur enda á árásina á þjóð okkar. Þrátt fyrir það er afstaða Ísraela enn ósveigjanleg og uppfyllir ekki nein skilyrði þjóðar okkar og uppreisnar,“ sagði í yfirlýsingu Hamas.
Forsendur Hamas fyrir vopnahléi eru að Ísraelar hætti árásum sínum á Gasa, dragi herlið sitt þaðan og leyfi íbúum að snúa aftur til síns heima. Ísraelar krefjast þess á móti að Hamas sleppi öllum gíslunum sem samtökin tóku í hryðjuverkaárás sinni 7. október og leiðtogar samtakanna gefist upp. Þeir hafa lýst sig tilbúna til þess að skipta á fangelsuðum Palestínumönnum fyrir gíslana en ekki til þess að hætta hernaðinum.
Enn eru 133 af þeim 253 Hamas-liðar rændu í október í haldi samtakanna. Viðræðurnar hafa snúist um lausn á fjörutíu þeirra til að byrja með, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Heilbrigðisráðuneyti Gasa, sem Hamas stýrir, segir að um 33.360 Palestínumenn hafi fallið frá því að Ísraelar hófu hernað sinn. Ísraelar segja að vígamenn Hamas hafi drepið um 1.200 manns í hryðjuverkaárásinni í sunnanverðu landinu sem varð kveikjan að nýjasta stríði þeirra.