
Þingflokkar á Alþingi koma saman til reglulegra funda klukkan eitt. Reikna má með að formenn stjórnarflokkanna færi samflokksmönnum sínum fréttir af gangi mála í viðræðum þeirra um áframhaldandi samstarf og hver eigi að taka við forsætisráðherraembættinu af Katrínu Jakobsdóttur.
Hún gegnir nú embættinu í starfsstjórn að ósk Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands eftir að hún baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt á Bessastöðum í gær.
Forsetinn sagði við það tækifæri að hann reiknaði senn með niðurstöðu í viðræðum formanna og varaformanna stjórnarflokkanna.
Formenn stjórnarflokkanna „hefðu tjáð honum að þeir hefðu hug á að halda stjórnarsamstarfi áfram undir forystu nýs forsætisráðherra. Þess mætti vænta að senn komi í ljós hver það verði."

Formenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri græna ásamt varaformönnum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og Svandísi Svavarsdóttur hafa tekið þátt í viðræðum flokkanna um möguleika á áframhaldandi samstarfi. Ætla má að þau ræði hvaða mál á að setja í forgang í þá átján mánuði sem eftir eru af kjörtímabilinu og hver á að leiða það stjórnarsamstarf.

Þar stendur valið milli Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins og Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknarflokksins. Þá er reiknað með að Vinstri græn fái eitt ráðuneyti í stað forsætisráðuneytisins.
Þingfundur hefst að loknum þingflokksfundum klukkan þrjú þar sem búist er við að forseti þingsins lesi bréf frá Katrínu Jakobsdóttur um að hún segi af sér þingmennsku.

Fyrsta mál á dagskrá þingfundar eru síðan óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra.
Þar eiga samkvæmt dagskrá þrjú af þeim sem ræða framtíð stjórnarsamstarfsins að sitja fyrir svörum þingmanna. Þau Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra.