Innlent

Halla Hrund komin með lág­marks­fjölda með­mælenda

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Halla Hrund Logadóttir er orkumálastjóri og nú forsetaframbjóðandi.
Halla Hrund Logadóttir er orkumálastjóri og nú forsetaframbjóðandi.

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri hefur safnað lágmarksfjölda meðmæla í meðmælendasöfnun forsetaframbjóðenda á vef Ísland.is. Þetta staðfestir Sunna Kristín Hilmarsdóttir, sem er í kosningateymi Höllu, í samtali við fréttastofu. 

Halla Hrund hóf meðmælendasöfnun skömmu eftir að hún tilkynnti um framboð sitt klukkan tíu í morgun. 

Safna þarf 1500 meðmælum en þó lágmarksfjölda úr öllum fjórum landsfjórðungum. Þannig þarf 1233 undirskriftir úr Sunnlendingafjórðungi, 157 úr Norðlendingafjórðungi, 56 úr Vestfirðingafjórðungi og 54 úr Austfirðingafjórðungi.

Ásamt Höllu Hrund hafa nú Baldur Þórhallsson, Jón Gnarr, Halla Tómasdóttir, Arnar Þór Jónsson og Ástþór Magnússon fengið lágmarksfjölda undirskrifta. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur enn ekki hafið undirskriftasöfnun. 

Tæplega sjötíu manns sem byrjað hafa undirskriftasöfnun á vef Ísland.is eiga eftir að ná lágmarksfjölda undirskrifta, þar með talið Helga Þórisdóttir, Sigríður Hrund Pétursdóttir og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir.

Halla ræddi um framboðið við fréttamann í Kvöldfréttum Stöðvar 2. Viðtalið má nálgast hér að neðan. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Tengdar fréttir

Halla Hrund býður sig fram

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri ákvað um páskana að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×