Íslenski boltinn

Besta-spáin 2024: Miða á stjörnurnar

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir Víkingi 2. sæti Bestu deildar karla í sumar.

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Víkingar fagna Íslandsmeistaratitlinum á síðasta tímabili. vísir/hulda margrét

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir Víkingi 2. sæti Bestu deildar karla í sumar.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Bestu deild karla með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með leik Stjörnunnar og Íslandsmeistara Víkings í dag, laugardaginn 6. apríl.

Íþróttadeild spáir Víkingi 2. sæti Bestu deildarinnar í sumar og liðinu takist ekki að verja Íslandsmeistaratitilinn sem það vann í fyrra.

Síðasta tímabil var draumi líkast í Víkinni. Þeir rauðu og svörtu unnu fyrstu átta leiki sína og fengu aðeins á sig tvö mörk í þeim. Og til að gera langa sögu stutta átti enginn roð í Víkingana. Þeir unnu Bestu deildina með yfirburðum, settu nýtt markamet, unnu Mjólkurbikarinn fjórða sinn í röð og stimpluðu sig inn í umræðuna um eitt af bestu liðum íslenskrar fótboltasögu.

Arnar Gunnlaugsson er illa haldinn af bikaræði.vísir/hulda margrét

Víkingar hafa svifið um á bleiku skýi síðan Arnar Gunnlaugsson tók við liðinu haustið 2018. Síðan þá hefur Víkingur unnið sex stóra titla, tvo Íslandsmeistaratitla og fjóra bikarmeistaratitla og unnið tvöfalt í tvígang. 

Árangurinn sem Arnar hefur náð hefur vakið athygli út fyrir landssteinanna og sænska liðið Norrköping vildi fá hann sem þjálfara í vetur. Kári Árnason og félagar á skrifstofu Víkings sögðu hins vegar nei og stuðningsmenn liðsins gátu andað léttar.

grafík/gunnar tumi

Arnar fór ekkert en Birnir Snær Ingason, besti leikmaður Bestu deildarinnar á síðasta tímabili, fór hins vegar í atvinnumennsku. Í stað hans fengu Víkingar Valdimar Þór Ingimundarson sem var frábær síðast þegar hann spilaði á Íslandi. 

Pálmi Rafn Arinbjörnsson fyllir skarð Þórðar Ingasonar sem er hættur og þá er Jón Guðni Fjóluson kominn heim eftir þrettán ár í atvinnumennsku. Hann hefur lítið spilað undanfarin ár en ef hann nær einhverju sem líkist fyrri styrk verður hann gríðarlegur liðsstyrkur fyrir Víking.

grafík/gunnar tumi

Styrktarþjálfari Víkings undanfarin ár, Guðjón Örn Ingólfsson, fór til KR og í hans stað fékk félagið Óskar Örn Hauksson, leikjahæsta leikmann í sögu efstu deildar. Njarðvíkingurinn ætlar ekki bara að sjá til þess að Víkingar verði í formi heldur mun hann einnig spila með þeim. Allt er fertugum fært og allt það.

Víkingur hefur unnið allt sem hægt er að vinna síðan Arnar tók við en hann dreymir eflaust um að nema alvöru lönd í Evrópukeppni og koma liðinu í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar eins og Breiðablik gerði í fyrra. Það verður verðugt verkefni að halda þremur boltum á lofti í einu en leikmannahópur Víkings er breiður og góður. Þó er enginn vinstri bakvörður í honum eftir að Logi Tómasson var seldur erlendis í fyrra og það er eini augljósi veikleiki Víkinga. 

Valdimar Þór Ingimundarson er kominn aftur í Bestu deildina eftir að hafa leikið með Álasundi í Noregi undanfarin ár.vísir/hulda margrét

Í sumar munu Arnar og Víkingarnir hans eflaust miða á stjörnurnar; gera sig gildandi í Evrópukeppni og reyna að verða aðeins annað liðið í íslenskri fótboltasögu til að vinna tvöfalt tvö ár í röð og verða fyrsta liðið síðan Valur 2018 til að verja Íslandsmeistaratitilinn.

Fyrir alla muni ekki veðja gegn því. Víkingsliðið er óhemju vel mannað, með reynslu og þekkingu í sínum röðum og besta þjálfara landsins. Það er því ekkert sem bendir til þess að gósentíðin taki endi í Víkinni. En samkeppnin verður eflaust harðari en í fyrra.


Tengdar fréttir






×