Þjófar sem höfðu á þriðja tug milljóna króna á brott úr peningaflutningabíl í Hamraborg í Kópavogi að morgni mánudagsins 25. mars síðastliðins leika enn lausum hala.
„Það er ekki búið að handtaka neinn enn þá, nema fólkið sem átti bílinn,“ segir Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöð þrjú, í samtali við Vísi. Kona sem á Yaris-bifreiðina sem þjófarnir notuðu við þjófnaðinn segir farir sínar ekki sléttar eftir samskipti hennar við lögreglu.
Hún hafi haft sambandi við lögreglu þegar lýst var eftir bílnum en sérsveitarmenn hafi samt sem áður handtekið kærasta hennar og látið hann dúsa í fangaklefa lengi vel.
Að öðrum leyti segist Gunnar ekkert geta sagt til um málið annað en að það sé í rannsókn. Hann gefur ekkert upp um það hvort lögregla hafi nokkurn grunaðan um verknaðinn eða hvort fjármunirnir séu fundnir.