Strákarnir okkar ferðast nú til Wroclaw í Póllandi, með leiguflugi, og ættu að vera lentir rúmlega 17 að staðartíma, eða eftir klukkan 16 að íslenskum tíma. Í pólsku borginni bíður þeirra úrslitaleikur við Úkraínu á þriðjudagskvöld.
Íslenski hópurinn hélt kyrru fyrir í Búdapest eftir sigurinn á fimmtudaginn og fór því aðra leið en Úkraínumenn sem strax á föstudagsmorgun, eftir að hafa slegið út Bosníu, ferðuðust frá Sarajevo til Wroclaw og hafa æft þar síðan.
Hópur íslenskra stuðningsmanna ferðast svo til Wroclaw í beinu flugi frá Íslandi á þriðjudagsmorgun, til að hvetja íslenska liðið.
Á morgun æfa bæði lið á Wroclaw-leikvanginum þar sem úrslitaleikurinn fer fram.
Ráðgert er að æfing Íslands sé á milli klukkan 15 og 16 á morgun, og í kjölfarið er svo blaðamannafundur með Åge Hareide og einum leikmanna hans sem væntanlega verður fyrirliðinn Jóhann Berg Guðmundsson. Úkraínumenn æfa svo í kjölfarið og halda sinn blaðamannafund eftir að þeim íslenska lýkur.
Vísir heldur að sjálfsögðu áfram að flytja fréttir tengdar leiknum en flautað verður til leiks klukkan 19:45 á þriðjudagskvöld, að íslenskum tíma.

Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 26. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.