Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ávarpaði bændur og aðra gesti við upphaf Búnaðarþings á fimmtudaginn. Hún kom víða við í ræðu sinni og það vakti athygli þegar hún ræddi um merkingarleysi á íslenskum landbúnaðarafurðum og lét bændur heyra það þegar það kom að þeim punkti í ræðunni.
„Ég vil segja það að ég hef mikla trúa á almenningi á Íslandi og ég tel að íslenskir neytendur vilji standa með innlendum landbúnaði. Við þurfum hins vegar að auðvelda neytendum að taka upplýstar ákvarðanir.“
Og Katrín sagði að ef hún færi út í verslun án gleraugnanna sinna þá sé engin leið fyrir hana að vita hvað hún sé að kaupa.
„Það eru engar fánamerkingar þegar ég ætla að kaupa mér lambakjöt, ég get alveg eins verið að kaupa þýskt eða nýsjálenskt lambakjöt, því það er merkt með smásæju letri. Þegar ég fer í verslun í Frakklandi þá veit ég nákvæmlega hvað ég er að kaupa, þar eru fánalitirnir,“ sagði Katrín.
Og því ekkert mál að vita að viðkomandi vara er 100 prósent frá frönskum bændum en á Íslandi sé ekkert að frétta þegar merkingar á vörum íslenskra bænda er að ræða.
„Og ef við treystum því að almenningur á Íslandi vilji standa með íslenskri framleiðslu þá þurfum við líka að hjálpa þeim sama almenningi að velja innlenda framleiðslu, það erum við ekki að gera núna,“ sagði forsætisráðherra og settur landbúnaðarráðherra.

Fram kom hjá Katrínu að Bændasamtökin með aðstoð stjórnvalda hafi látið útbúa einfalda upprunamerkingu, „Íslenskt staðfest“, en með notkun á því merki sé fylgt Norrænni fyrirmynda og svo sagði Katrín þetta.
„Samt fáum við neytendur sjaldan að sjá þetta merki, því er borið við að það kosti of mikið og það finnst mér ekki vera sannfærandi rök,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra á Búnaðarþingi.
