Fótbolti

Sjáðu dramað á Spáni og Sancho slá PSV í rot

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn Atlético Madrid fögnuðu vel og lengi í gær eftir að hafa tryggt sig áfram í 8-liða úrslit með miklum naumindum.
Leikmenn Atlético Madrid fögnuðu vel og lengi í gær eftir að hafa tryggt sig áfram í 8-liða úrslit með miklum naumindum. Getty/Burak Akbulut

Það stefnir í sannkallaða veislu í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta þar sem átta stórlið berjast. Tvö síðustu liðin komust áfram í gærkvöld og mörkin úr þeim leikjum má nú sjá á Vísi.

Það voru Atlético Madrid og Dortmund sem tóku síðustu lausu sætin í 8-liða úrslitum. Dortmund vann PSV 2-0, og einvígið samtals 3-1, en Atlético komst naumlega með einvígi sitt við Inter í framlengingu og réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni.

Það var Jadon Sancho, lánsmaður hjá Dortmund frá Manchester United, sem skoraði afar mikilvægt mark snemma leiks gegn PSV og kom þýska liðinu yfir í einvíginu. Marco Reus innsiglaði svo sigurinn með auðveldu marki rétt áður en flautað var til leiksloka.

Klippa: Mörk Dortmund gegn PSV

Spennan var mikil í Madrid þar sem heimamenn í Atlético lentu undir á 33. mínútu, þegar Federico Dimarco skoraði eftir frábæran samleik Inter fram völlinn.

Antoine Griezmann jafnaði metin fljótt þegar hann nýtti sér mistök í vörn Inter. Þegar fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma skoraði svo Memphis Depay úr miðjum teignum og jafnaði einvígið.

Ekkert var skorað í framlengingunni en í vítaspyrnukeppninni reyndust heimamenn sterkari. Jan Oblak varði tvær spyrnur og Lautaro Martínez þrumaði hátt yfir úr síðustu spyrnu Inter.

Klippa: Mörk og víti Atlético og Inter

Liðin í átta liða úrslitum eru því Arsenal, Barcelona, PSG, Atlético Madrid, Dortmund, Bayern München, Manchester City og Real Madrid. Dregið verður í átta liða og undanúrslit í hádeginu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×