Indriði Stefánsson bæjarfulltrúi Pírata lagði erindi þess efnis fyrir jafnréttis- og mannréttindaráð Kópavogs. Málið var tekið fyrir í bæjarstjórn í gær.
Indriði athugar í erindinu atkvæðafjölda á bak við hvern þingmann eftir kjördæmum. Niðurstaðan er eftirfarandi:
Miðað við óbreytta kjörskrá frá 2021 eru 4042 atkvæði á bak við hvern þingmann.
Eftir breytingar vegna atkvæðavægis eru í:
- NV 3078 atkvæði á bak við hvern þingmann (76% af landsmeðaltali)
- NA 2989 atkvæði á bak við hvern þingmann (73% af landsmeðaltali)
- SU 3842 atkvæði á bak við hvern þingmann (95% af landsmeðaltali)
- SV 5266 atkvæði á bak við hvern þingmann (130% af landsmeðaltali)
- RS 4156 atkvæði á bak við hvern þingmann (103% af landsmeðaltali)
- RN 4124 atkvæði á bak við hvern þingmann (102% af landsmeðaltali)
„Ég vil að við sendum út áskorun á Ríkisstjórn og Alþingi að það sé ótækt að Suðvesturkjördæmi sé það eina sem býr við skert atkvæðavægi,“ segir í erindinu.
Málinu var vísað til bæjarstjórnar til afgreiðslu í gær og var þar samþykkt einróma. Áskorun bæjarstjórnar segir:
„Kjördæmakerfið á Íslandi býður upp á allt að tvöfaldan mun á vægi atkvæða eftir búsetu kjósenda og líður Suðvesturkjördæmi hvað mest fyrir misskiptingu atkvæða.
Bæjarstjórn Kópavogs skorar á Alþingi/innviðaráðherra/stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að gera viðeigandi breytingar á kosningalögum nr. 112/2021 í þeim tilgangi að jafna atkvæðavægi á milli kjördæma,“ segir í bókun bæjarstjórnar.